Blindhríð og lítið ferðaveður er nú á Sandskeiði og þar hafa tveir árekstrar orðið á síðasta hálftímanum.
Um aftanákeyrslur var að ræða í báðum tilvikum en samkvæmt upplýsingum frá vegfaranda sem hafði samband við sunnlenska.is „vita menn ekkert hvar þeir eiga að vera“ á nýja vegkaflanum á Sandskeiði.
Ekki er vitað hvort slys hafi orðið á fólki í árekstrunum.
Veðurstofan gerir ráð fyrir hvassviðri með dimmum éljum í dag og undir Eyjafjöllum og í Mýrdal er spáð snörpum vindhviðum fram eftir degi.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er hálka og skafrenningur á Hellisheiði og í Þrengslum og snjóþekja víða á Suðurlandi.