Á sumardaginn fyrsta undirrituðu Hveragerðisbær og hagsmunaaðilar „græna geirans“ undir samkomulag um aðkomu að garðyrkju- og blómasýningunni „Blóm í bæ“ til tveggja ára. Hátíðin í ár fer fram dagana 24.-27. júní.
„Það er Hvergerðingum mikið ánægjuefni að finna þann stuðning sem ríkir við sýninguna „Blóm í bæ“ sem í fyrsta sinn var haldin hér í fyrrasumar. Það var einróma skoðun þeirra sem stóðu að sýningunni þá að hún hefði tekist afar vel og verið mikil lyftistöng og kynning fyrir garðyrkju á Íslandi,“ sagði Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, í samtali við sunnlenska.is
Þeir aðilar sem þannig hafa ákveðið að taka þátt í sýningunni eru Hveragerðisbær, Landbúnaðarháskóli Íslands, Samband garðyrkjubænda og þar með Félag garðplöntuframleiðenda, Félag blómaframleiðenda og Félag grænmetisframleiðenda. Einnig Félag skrúðgarðyrkjumeistara, Félag íslenskra landslagsarkitekta, Félag blómaskreyta, Garðyrkjufélag Íslands og þar með taldir undirklúbbar félagsins, Blómaskreytingaklúbbur GÍ, Matjurtaklúbbur GÍ og Rósaklúbbur GÍ. Ennfremur munu fyrirtækin Grænn markaður ehf, Samasem ehf og Sölufélag garðyrkjumanna standa að sýningunni sem fram fer dagana 24.-27. júní 2010 og 23.-26. júní 2011 í Hveragerði.
Samkomulagið felur í sér skuldbindingu þess efnis að hver þátttakandi komi að sýningunni með þeim hætti sem hann telur hagsmunum sínum best borgið og vinni jafnframt að markmiðum sýningarinnar í heild sinni af metnaði sem fagsýningu.
Markmið sýningarinnar eru að skapa vettvang til að sýna framfarir í garðrækt og efla ræktunarmenningu og fjölbreytni, skemmta sýningargestum og efla samvinnu, metnað og viðskipti innan græna geirans og styrkja samkeppnisstöðu hans.