Hátíðin Blóm í bæ í Hveragerði um næstu helgi verður helguð grænum lífsstíl enda er undirtitill helgarinnar Græna byltingin. Hvergerðingar bjóða heim á stærsta viðburð á sviði umhverfismála, græna geirans og vistvænna farartækja, sem haldinn er á árinu.
„Gestir og íbúar eru hvattir til að koma og njóta blómabæjarins og góða veðursins sem spáð er hér sunnanlands um næstu helgi. Á túnunum við Hótel Örk verða vistvænir bílar til sýnis og aðrir fararskjótar framtíðarinnar. Fjölbreyttir markaðir með afurðum græna geirans verða víða um bæinn, skemmtilegar gönguferðir, glæsilegar sýningar, ýmis fræðsluerindi, núvitundar- og sögugöngur, blómaskreytingar og gróður,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri.
Einnig er kynning á hænsna- og dúfnaræktun, bý- og hunangsræktun og fleira auk þess sem um 30 faglærðir blómaskreytar taka þátt og sýna glæsilegar skreytingar í aðalgötu bæjarins og í Lystigarðinum við Fossflöt.
Land Art hönnunarsýning verður í Varmárgili en sýningin er unnin úr náttúruefnum sem eru í nærumhverfinu og eyðast þær í náttúrunni með tímanum.
Í gróðurhúsi við Þelamörk verður sett upp sýning á pottaplöntum og markaður og þar gefst gestum tækifæri til að heilsa upp á hann Jobba sem er apinn sem fyrir margt löngu hafði búsetu hjá Michelsen í Hveragerði. Einnig verður þar fjöldi páfagauka sem gleðja mun gesti.
Endurnýting og endurvinnsla er í hávegum höfð í blómabænum og munu íbúar opna skúra og garða og bjóða ýmis konar varning til sölu.