Undirbúningur fyrir sýninguna Blóm í bæ í Hveragerði hefur staðið yfir á fullu síðustu daga. Allt stefnir í glæsilega sýningu í blíðskaparveðri.
Hátíðin hefst í dag kl. 12 en hún er nú haldin í fjórða sinn. Tugþúsundir gesta hafa sótt hátíðina og notið fjölbreyttrar sýningar á öllu því sem tilheyrir græna geiranum auk þess sem skreytingar blómaskreyta í bæjarfélaginu hafa vakið mikla athygli fyrir frumleika og fegurð.
Þema sýningarinnar í ár er „sirkus“ og munu skreytingar á sýningunni taka mið af því. Alls konar kynjaverur sirkusins lifna við í blómum og myndum og litagleðin tekur öll völd.
Í beðum og kerjum má sjá marglit blóm af ýmsum gerðum sem öll minna okkur á fjölbreytileika náttúrunnar og gæði íslenskrar framleiðslu. Aldrei hefur jafn mikið magn af afurðum græna geirans verið til sýnis á einum stað.