Garðyrkju- og blómasýningin Blóm í bæ er nú haldin í fimmta sinn í Hveragerði. Sýningin var sett formlega í gær af Sigurði Inga Jóhannssyni, umhverfisráðherra og þar með hófst fjörið í blómabænum.
Blómaskreytar frá sex þjóðlöndum auk Íslands tóku þátt í undirbúningi sýningarinnar og hafa þeir meðal annars unnið verk í svokölluðum LandArt stíl en þá er unnið með efni úr náttúrunni, í náttúrunni. Þessi verk má nú sjá í Varmárgili ofan við Lystigarðinn Fossflöt. Er nokkuð ljóst að vinna má hin flottustu listaverk úr efnivið sem við flest hver metum lítils.
Afskorin blóm og garðplöntur í þúsundatali voru fluttar til bæjarins en Samband garðyrkjubænda er öflugur þátttakandi í sýningunni. Í Hveragerði má nú á einum stað finna ótrúlegt úrval blóma og fjölbreytt úrval afurða sem tengist hinum græna geira.
Dagskrá hátíðarinnar er einstaklega fjölbreytt og má þar m.a. nefna garðasúpu sem bæjarbúar bjóða uppá milli kl. 17:30 og 19 í dag laugardag. Yfir daginn ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi bæði ungir sem aldnir en markaðir, listsýningar, góðar veitingar og tónlist setja svip sinn á Hveragerði þessa helgina.