Verslunin Sjafnarblóm á Selfossi hélt á dögunum upp á að tíu ár eru liðin frá því að núverandi eigendur tóku við rekstri verslunarinnar.
Sjafnarblóm hefur þó verið starfrækt frá árinu 1992 en hún var fyrst í eigu Sjafnar Haraldsdóttur sem opnaði verslunina í húsnæði í Hótel Selfoss. Núverandi eigendur, þær Ásdís Halldórsdóttir og Kolbrún Markúsdóttir, störfuðu hjá Sjöfn áður en þær keyptu reksturinn árið 2003. Þær stöllur ákváðu að fagna áfanganum með því að bjóða upp á kaffi og með því í versluninnni á afmælisdaginn.
Dótahúsið svaraði eftirspurn
Eftir að Kolbrún og Ásdís tóku við rekstri Sjafnarblóma ákváðu þær að gera nokkrar breytingar. „Við opnuðum hérna niður í kjallara þar sem áður var bara lager en einnig voru þar blómapottar af ýmsu tagi. Í kjallaranum vorum við með gjafavöru fyrir ýmis tilefni. Eftir að við opnuðum fórum við svo sjálfar að flytja inn vörur,” segir Kolbrún.
Dótahúsið var svo opnað nokkrum árum síðar í kjölfar þess að Leikbær lokaði á Selfossi. „Það má segja að það hafi myndast ákveðið pláss á sunnlenska leikfangamarkaðnum því eftirspurnin var til staðar og því ákváðum við að opna Dótahúsið. Áður vorum við með leikföng fyrir börn, svo sem púða fyrir minnstu krílin og skírnargjafir,” segja þær Ásdís og Kolbrún.
Tryggur hópur viðskiptavina
Þær segja að í gegnum árin hafi fylgt þeim traustur hópur viðskiptavina sem kemur aftur og aftur. Einnig kemur fólk sem er í sumarbústöðum í nágrenninu. Þær hafa þó orðið varar við að vinkonuhópar úr Reykjavík séu farnir að koma í auknum mæli í búðina á ferðalögum sínum hér á svæðinu.
2007 æðið gekk of langt
Þær stöllur segja að sala á blómum og gjafavöru hafi minnkað á síðustu árum sem kannski megi rekja til þess að fólk hafi minna á milli handanna.
„Það má kannski segja að salan í dag sé á pari við það sem hún var þegar við opnuðum. Svo kom 2007 æðið og það fór bara út í rugl. Fólk var kannski að henda öllu út hjá sér og svo var bara allt keypt nýtt. Núna er fólk meira að koma og kaupa tækifærsgjafir,” segir Kolbrún.