Öllum viðburðum bæjarhátíðarinnar Blómstrandi daga sem halda átti um komandi helgi í Hveragerði er aflýst vegna aðstæðna í samfélaginu og sóttvarnatakmarkana.
Bæjarbúar eru þrátt fyrir þetta hvattir til að skreyta garða sína og götur og gleðja þannig vegfarendur með fallegum skreytingum. Aldrei er að vita nema að bæjarbúar verði með bílskúrssölur á einhverjum stöðum og mögulega verða einnig listamenn með opin hús. Allt í fullu samræmi við sóttvarnareglur.
Gestir eru velkomnir í bæinn og eru þeir hvattir til að njóta fallegra og fjölbreyttra gönguleiða sem nóg er af í og við bæjarfélagið.
Sundlaugin Laugaskarði er opin eftir endurbætur og þar er tekið fagnandi á móti gestum. Það er einnig reyndin varðandi Listasafn Árnesinga þar sem sýning á verkum Rósku hefur vakið mikla athygli.
Hveragarðurinn er opinn og þar má sjóða egg í hver og fara í fótabað og/eða leirbað. Tilvalið er líka að heimsækja garðyrkjustöðvar, verslanir og veitingastaði og eiga góða stund í blómabænum.
„Við vonumst til þess að á næsta ári verði mögulegt að halda veglega bæjarhátíð og hlökkum til að hitta ykkur öll þá í blómabænum. Mögulega verða minni viðburðir haldnir í haust leyfi sóttvarnareglur og ástand samfélagsins slíkt,“ segir í tilkynningu frá Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra og Jóhönnu Margréti Hjartardóttur, menningar- og frístundafulltrúa.