Björgunarsveitir á Suðurlandi og úr Árnessýslu hafa verið kallaðar út vegna neyðarboða sem bárust frá neyðarsendi að Fjallabaki fyrr í kvöld, nánar tiltekið frá svæðinu norðan Torfajökuls.
Enn er verið að vinna í því að afla upplýsinga um hver það er sem hefur virkjað neyðarsendinn, eðli neyðarinnar og staðsetning eru óljós.
Í gildi er gul viðvörun frá Veðurstofunni á miðhálendinu enda hefur verið slagveður á hálendinu í allan dag og miklir vatnavextir. Fyrir innan Landmannalaugar eru nú 15-20 metrar á sekúndu, slydda og fjöllin eru farin að hvítna.
Nokkrir tugir björgunarsveitafólks eru á leiðinni á svæðið þar sem talið er að boðin hafi borist frá og er leit hafin.