„Í haust var samþykkt tillaga frá mér í sveitarstjórn um að skipta út dekkjakurlinu út af eina sparkvellinum í Rangárþingi eystra en hann er við Hvolsskóla.
Við förum í þetta um leið og klaki er farinn úr jörðu, ég held bara að við höfum verið með þeim allra fyrstu til að taka af skarið með þetta,” segir Kristín Þórðardóttir, sveitarstjórnarmaður í sveitarstjórn Rangárþings eystra vegna umræðunnar um dekkjakurl á sparkvöllum landsins.
„Við setjum börnin í forgang, látum þau njóta vafans og erum ekkert að bíða lon og don eftir rannsókn sem sannar þetta með óyggjandi hætti,” bætir Kristín við.
Í umræðunni hefur komið fram að í dekkjakurli séu krabbameinsvaldandi efni og önnur eiturefni sem geta verið hættuleg fyrir börn og aðra iðkendur íþrótta á gervigrasvöllum.
Aðalfundur Læknafélags Íslands ályktaði þegar árið 2010 á þann veg að hvetja til þess að notkun dekkjakurls á íþrótta- og leiksvæðum yrði bönnuð og Umhverfisstofnun hefur fjallað um málið og mælst til þess að þar sem endurbætur á sparkvöllum fari fram verði dekkjakurli skipt út fyrir aðra gúmmítegund.
„Það er almenn vitneskja að í hjólbörðum eru ýmis eiturefni sem meðhöndla verður af varúð og er það mat mitt sem flutningsmanns tillögunnar að þrátt fyrir að engin rannsókn hafi sannað með óyggjandi hætti bein tengsl milli notkunar dekkjakurls á gervigrasi og nýgengis krabbameina, þá sé til staðar nægilegur vafi sem okkur ber skylda til að túlka börnum okkar og ungmennum í hag og skipta dekkjakurlinu þegar í stað út fyrir annað sem laust er við eiturefni,“ segir Kristín.