„Við J-listamenn fórum seint á fætur á þessari baráttu og nokkuð tvíátta framan af vetri hvort fara skyldi,“ segir Bjarni Harðarson, en Regnboginn fékk minnst fylgi allra framboða í Suðurkjördæmi.
„Við tókum til verksins aðeins sex vikur og vorum þó flestir í fullu starfi með. En það er langt því frá að hér sé eftir nokkru að sjá. Þetta var skemmtilegur tími, skemmtileg umræða og okkur tókst með afgerandi hætti að koma ESB baráttunni á dagskrá. Enginn þarf þó að ætla að fylgisleysi okkar sé mælikvarði á stöðu þeirrar baráttu enda guldu allir þeir flokkar sem höfðu beina ESB aðild á stefnuskrá sinni algert afhroð,“ segir Bjarni í þakkarpistli á bloggsíðu sinni.
„Nú gæti ég haft á orð á að við höfum í þessu ekki búið við jafnræði í fjárráðum eða annarri aðstöðu en ég tel það þó ekki hafa skipt sköpum. Staðreyndin er að skriðþungi sveiflunnar í samfélaginu var okkur einfaldlega of þungur og fyrir henni hlutum við að falla. Mörg okkar urðu undir í þeim mikla skriðþunga sem var á mínum gamla flokki Framsókn í þessum kosningum. Í mér bærist vitaskuld gleði yfir að hafa þó frekar orðið undir þeim ofvexti en ef verið hefði frá krötum eða íhaldi,“ segir Bjarni sem stendur brosandi upp eftir glímuna.
„Bókabéusinn í mér hlær nú og fagnar, því glaðastur að fá að vera hér innan um dýrðlegar skræður fremur en að vera vistaður á stofnun fyrir sunnan,“ segir Bjarni að lokum.