Þriðjudaginn 16. júní klukkan 13 mun Bókakaffið á Selfossi opna bókamarkað í Ármúla 42 í Reykjavík þar sem hægt verður að finna þúsundir titla á einum stað.
„Bækurnar koma frá fornbókabúðinni okkar og forlaginu Sæmundi en einnig frá helstu forlögum sunnan heiða. Það verður heitt á könnunni og notaleg bókastemmning og klukkan 16, þennan aðfangadag þjóðhátíðar, skálum við svo í hvítu fyrir þessum nýja vísi að sunnlensku bókakaffi í Reykjavík,“ segir Bjarni Harðarson hjá Bókakaffinu og bætir við að allir séu velkomnir á opnunina á meðan húsrúm leyfir.
Opið verður sex daga vikunnar frá 13 til 18 og er áætlað er að markaðurinn standi fram yfir verslunarmannahelgi. Verslunarstjóri í Ármúlanum er Jóhannes Ágústsson.