Framkvæmda- og veitustjórn Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að bora eftir köldu vatni á íþróttavallarsvæðinu við Engjaveg á Selfossi.
Vatnið verður notað til vökvunar á íþróttavallarsvæðinu og kostnaður við verkefnið rúmast innan fjárhagsáætlunar ársins.
Íbúar Árborgar hafa verið beðnir um að spara kalda vatnið síðustu sumur en Elfa Dögg Þórðardóttir, formaður veitustjórnar, sagði í samtali við sunnlenska.is að líklega þyrfti þess ekki í sumar.
Ný hola í Brennigili kemst í gagnið og von er á því að ráðist verði í frekari framkvæmdir til að auka vatnsforðann. Þá skipti tíðafarið einnig máli en miklir þurrkar hafa verið síðustu tvö sumur.