Borgarverk ehf í Borgarnesi bauð lægst í endurgerð á hluta Tryggvagötu á Selfossi sem unnið verður að í sumar. Tilboð Borgarverks hljóðaði upp á 95% af kostnaðaráætlun.
Borgarverk bauð rúmar 112,6 milljónir króna í verkið, en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á tæpar 118 milljónir króna.
Tvö önnur tilboð bárust, frá Hálsafelli ehf. í Reykjavík, tæpar 119,2 milljónir króna og frá Gröfutækni á Flúðum tæpar 121,5 milljónir króna.
„Þetta er svæðið frá og með Austurvegi upp fyrir sundlaugina. Það þarf að skipta um allar lagnir þarna og síðan verður malbikað og gengið frá gönguleiðum,“ sagði Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, þegar Sunnlenska spurði hana út í framkvæmdirnar. „Þetta verður heilmikil framkvæmd og mun hafa áhrif á umferð og akstursleiðir. Leitast verður við að merkja hjáleiðir vel og gera umferð gangandi sem auðveldasta á meðan á framkvæmdum stendur,“ segir Ásta.
Áætluð verklok eru þann 1. ágúst næstkomandi.