Undanfarna daga hefur verið unnið við að rýma rannsóknarholuna við Jórutún á Langanesi á Selfossi með það að markmiði að fóðra holuna með stálfóðringu niður á rúmlega 200 metra dýpi. Holan sjálf er 865 metra djúp.
Þann 19. apríl síðastliðinn komu bormenn frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða niður á heitt vatn á þessum stað, en jarðhitaleit hefur staðið yfir á svæðinu síðan í vetur.
„Rýmingunni hefur fylgt vatnsrennsli frá holunni sem leitt er í bráðabirgðalögn að bökkum Ölfusár. Tilgangurinn með fóðringunni er að loka á innrennsli úr köldum æðum og búa í haginn fyrir vinnslu úr holunni,“ segir Jón Tryggvi Guðmundsson, framkvæmda- og veitustjóri Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.
Hann segir að vonast sé til að hægt verði að vinna heitt vatn úr æðum neðan við 200 metra og fá um 70 gráðu heitt vatn úr holunni.
„Afkastamæling verður gerð eftir fóðrunarvinnu og þá kemur í ljós hversu mikið vinnanlegt magn er í holunni,“ segir Jón Tryggvi ennfremur.