Nýverið opnaði sálfræðistofan Sálarlíf á Selfossi en hún er sérstaklega ætluð börnum og unglingum.
„Að opna sálfræðistofu á Selfossi hefur blundað í mér undanfarið, þar sem skortur hefur verið á slíkri þjónustu hér á Suðurlandi. Eftirspurn eftir sálfræðiþjónustu fyrir börn og unglinga hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár,“ segir Tinna Rut Torfadóttir, sálfræðingur og eigandi stofunnar, í samtali við sunnlenska.is.
Mikilvægt að grípa snemma inn í
„Ástæðan fyrir því að eftirspurn eftir sálfræðiþjónustu hefur aukist undanfarin áratug getur verið margvísleg, umræðan er ef til vill opnari varðandi geðheilbrigði en hún var fyrir um áratug og einstaklingar ef til vil jákvæðari fyrir því að leita sér faglegrar aðstoðar og meðvitaðri um sína eigin líðan,“ segir Tinna.
„Mikilvægt er að hlúa að geðheilbrigði barna og unglinga og skiptir þar snemmtæk íhlutun meginmáli, að stíga inn í nógu snemma, greina vandann og veita bestu mögulegu meðferð eins fljótt og hægt er. Vægur tilfinningavandi getur t.d. þróast yfir í hamlandi vanda og dregið úr eða skert getu einstaklingsins til að taka þátt í hinu daglega lífi ef ekki er gripið inn í á réttum tímapunkti,“ bætir hún við.
Tinna segir að undanfarin ár hafi biðlistar eftir sálfræðiþjónustu fyrir börn og unglinga því miður farið hratt vaxandi hér á landi. „Börn og unglingar og langir biðlistar fara alls ekki saman.“
Hefur góða innsýn inn í aðstæður barna og unglinga
„Að hjálpa börnum og unglingum í átt að betra lífi er mér mjög hugleikið. Ég starfaði sem grunnskólakennari í Sunnulækjarskóla í 8 ár og starfa einnig sem skólasálfræðingur hjá Árborg samhliða stofurekstrinum. Því tel ég mig hafa góða innsýn inn í þær aðstæður sem börnin og unglingarnir eru í daglega þ.e. skólaumhverfið. Þá er ánægjulegt að segja frá því að nýlega var samþykkt frumvarp á Alþingi um að sálfræðiþjónusta falli undir Sjúkratryggingar Íslands og bíðum við sálfræðingar eftir því að fjármagn verði sett í þennan málaflokk,“ segir Tinna.
Á sálfræðistofunni Sálarlíf verður áhersla lögð á meðferðarvinnu með börnum og unglingum. „Þá mun ég einnig taka að mér frumgreiningar hvað varðar tilfinningavanda, hegðunarvanda og taugaþroskaraskanir. Að lokum langar mig að nefna að börn vilja gera vel og gera vel ef þau geta. Stundum þarf að hjálpa þeim að rata í rétt fótspor og leiðbeina þeim um næstu skref.“
Fyrirfram ákveðnar gæðastundir mikilvægar
Tinna segir að mikilvægt sé að uppalendur fylgist vel með líðan barna sinna og unglinga. Ýmsir þættir í uppeldi geta haft fyrirbyggjandi áhrif varðandi líðan og hegðun:
– Dagleg útivera og líkamleg áreynsla.
– Reglulegar samvistir fjölskyldunnar á jákvæðum nótum.
– Reglulegir fjölskyldufundir þar sem málefni fjölskyldumeðlima og fjölskyldunnar í heild eru rædd.
– Reglulegar (fyrirfram ákveðnar) gæðastundir hvers barns með öðru foreldrinu eða báðum þar sem markmiðið er að njóta samverunnar við ýmsar ánægjulegar athafnir.
– Félagsleg virkni.
– Fjölbreytt áhugamál, sem ýmist eru stunduð með öðrum eða einslega.
– Sjónvarps- og tölvunotkun haldið innan skynsamlegra marka.
– Hæfilega ögrandi verkefni, bæði í námi og á öðrum sviðum.
– Jákvæð athygli frá öðrum fyrir góða viðleitni og frammistöðu í víðu samhengi.
– Reglulegur svefn.
– Hollt mataræði.
– Slökun.
Frekari upplýsingar um Sálarlíf – Sálfræðistofu er að finna hér https://www.salarlif.is/ Stofan er staðsett að Austurvegi 42, 2. hæð fyrir ofan Nettó.