Alls var 31 ökumaður kærður í liðinni viku fyrir að aka of hratt á Suðurlandi í síðustu viku.
Sá sem hraðast ók var á ferðinni við Botna í Meðallandi á 153 km/klst hraða. Það var erlendur ferðamaður og lauk hann málinu með greiðslu sektar að upphæð 210 þúsund og sviptingu ökuréttar í 1 mánuð.
Flestir þessara ökumanna voru á ferðinni þar sem hámarkshraðinn er 90 km/klst. Einn var á 90 km/klst hraða á vinnusvæðinu við Ingólfsfjall þar sem hámarkshraðinn er 50 km/klst og annar var á ferðinni innan þéttbýlismarka á Hellu, á 82 km/klst hraða þar sem hámarkshraðinn er 50 km/klst.