Æfingastöðin Box800 hefur flutt starfsemina sína í stærra og betra húsnæði við Eyraveg 57 á Selfossi.
„Fyrra húsnæði fór á sölu, þannig að við urðum að flytja. Við vorum þó búin að vera opin fyrir því að stækka stöðina, þar sem iðkendafjöldinn jókst hratt,“ segir Alda Kristinsdóttir, annar eigandi Box800, í samtali við sunnlenska.is. Alda rekur stöðina ásamt eiginmanni sínum, Eyþóri Stefánssyni.
Box800 opnaði í Gagnheiði 17 á Selfossi í janúar í fyrra og sló strax í gegn hjá heimafólki. „Ætli það hafi ekki verið í október eða nóvember sama ár sem við fórum að sjá að við gætum ekki verið í Gagnheiðinni til lengdar ef við vildum taka við fleiri iðkendum. Á þeim tíma þurftum við að loka fyrir nýjar áskriftir.“
Tók tvo mánuði að standsetja húsnæðið
Alda segir að það hafi þó ekki verið auðvelt að finna nýtt húsnæði. „Okkur gekk ekkert allt of vel að finna annað húsnæði í fyrstu en Eyravegur 57 kom óvænt upp á borðið og ákvörðunin um að flytja þangað var tekin mjög fljótt.“
Þegar húsnæðið var fundið gengu hlutirnir hratt fyrir sig, þökk sé góðu fólki. „Við fengum ótrúlega gott fólk með okkur í framkvæmdirnar. Við græjuðum allt sem þurfti fyrir okkar starfsemi, það er búningsklefa, tvo sali, ræstikompu og þess háttar. Þetta tókst á tveimur mánuðum sem er eiginlega magnað! Við erum ótrúlega þakklát öllum þeim sem hjálpuðu okkur.“
Meiri fjölbreytni
Ýmislegt breytist með flutningunum hjá Box800. „Við getum tekið við fleirum iðkendum þar sem við erum komin í þrefalt stærra rými. Rýmið leyfir okkur einnig að bjóða upp á meiri fjölbreytni í æfingum. Einnig munum við koma til með að bjóða upp á fleiri námskeið, þau verða auglýst á samfélagsmiðlum okkar og box800.is.“
„Við erum einnig mjög spennt fyrir að vera með nóg af bílastæðum þar sem því var ábótavant í Gagnheiðinni. Planið okkur verður einmitt malbikað á mánudaginn næstkomandi.“
Æfingar fyrir alla
Alda segir að tímarnir í Box800 séu fyrir alla, óháð því hvernig formið eða þolið er. Í æfingastöðinni ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
„Við viljum taka fram að við leggjum mikla áherslu á að æfingarnar okkur séu fyrir alla. Það er alltaf þjálfari sem stýrir æfingunum og aðstoðar iðkendur við að aðlaga hreyfingar að getu hvers og eins. Við hvetjum fólk til þess að hafa samband á samfélagsmiðlum eða senda okkur póst á info@box800.is ef það er með einhverjar pælingar eða vill prufa æfingu hjá okkur. Við þjálfararnir í Box800 tökum vel á móti nýjum iðkendum. Endilega kíkið á heimasíðuna okkar, box800.is, fyrir frekari upplýsingar.“
Á morgun, laugardag, verður svo opnunarteiti hjá Box800 og eru Alda og Eyþór spennt fyrir morgundeginum. „Opnunarteitið er opinn viðburður og hugsaður til þess að fagna afrakstrinum síðustu mánuði. Við hvetjum áhugasama til að kíkja á okkur, þá er tilvalið tækifæri til að kynna sér starfsemi okkar. Við verðum með heitt á könnunni og smá góðgæti með því,“ segir Alda að lokum.