Þórarinn Gíslason, læknir á lungnadeild Landspítalans og Þórir B. Kolbeinsson, yfirlæknir heilsugæslu Rangárþings, fóru á öskusvæðið undir Eyjafjöllum á dögunum og skoðuðu nokkra einstaklinga.
Nokkrir þeirra sem voru með undirliggjandi lungnaþembu voru með meiri einkenni en venjulega af sínum lungnasjúkdómi en enginn þeirra var með alvarleg einkenni. Þórir segir því ljóst að bráð eituráhrif af ösku séu óveruleg ef einhver.
Nú hefur dregið úr öskumyndun í gosinu í Eyjafjallajökli. Askan er nú grófari en inniheldur meiri flúor. Á heimasíðu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands kemur fram að óljóst sé hvort flúor hafi nokkur eituráhrif á menn.