Dagana 3. og 17. febrúar voru gerðar mælingar á brennisteinsvetni í íshelli sem staðsettur er í Blágnípujökli, suðvestur af Hofsjökli í Bláskógabyggð.
Hellir þessi hefur ekki verið meðal fjölfarinna ferðamannastaða en nú er svo komið að nokkur fjöldi fólks fer þarna með vel búnum fjallabílum í viku hverri. Fréttir hafa sést í fjölmiðlum um alvarlegt atvik sem talið er tengjast menguninni.
Þegar mælingarnar fóru fram var styrkur brennisteinsvetnis utan hellisins við 0 en eftir nokkurra mínútna göngu inn eftir hellisgólfinu var styrkurinn kominn yfir 20 ppm. Síðan fór hann hækkandi og á 2 mínútna tímabili mældust mjög há gildi, á bilinu 120-183 ppm. Við slíkan styrk brennisteinsvetnis er bráðahættuástand, lyktarskyn hverfur og erting öndunarfæra vex
Lögreglan á Suðurlandi hvetur fólk í ferðaþjónustu, sem og einstaklinga í hálendisferðum, til þess að kynna sér þessa hættu en ljóst er að þurfi að bjarga fólki við þessar aðstæður mun þurfa á sérhæfðum búnaði að halda fyrir þá sem vinna að björgun.
Á vef almannavarna er að finna upplýsingar um hætur sem fylgja mengun af brennisteinsvetni. (hér)
Þar segir m.a.:
Brennisteinsvetni, (H2S)
8 klst mengunarmörk eru 5 ppm (7mg/m3). 15 mínútna mengunarmörk eru 10 ppm (14mg/m3)
Eitrunareinkenni eru m.a:
Við 20-50 ppm má reikna með ógleði og lyktarskyn slævist.
Við 100-200 ppm er bráðahættuástand þá hverfur lyktarskyn og erting öndunarfæra vex.
Við 250-500 ppm verða menn sljóir. Meðvitundarmissir verður við 500 ppm.
Við 1000 ppm verður öndunarlömun (banvænt).