Bráðabirgðabrú smíðuð yfir Brunná

Hér sést bráðabirgðabrúin í byggingu en til vinstri við hana er gamla brúin sem brátt mun kveðja. Mynd/Pétur Eyjólfsson

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar í Vík vinnur nú að því að klára byggingu þrjátíu metra langrar einbreiðrar bráðabirgðarbrúar yfir Brunná í Skaftárhreppi.

Núverandi brú yfir Brunná er ein af nokkrum einbreiðum brúm á Hringveginum. Vegagerðin bauð út smíði nýrrar tvíbreiðrar brúar í lok síðasta árs og samið var við Ístak um byggingu hennar. Áður en smíði á nýju brúnni hefst þarf að reisa bráðabirgðabrú til að hægt sé að hleypa umferðinni á hana.

Smíði bráðabirgðarbrúarinnar er langt komin. Hún hófst með því að brúarvinnuflokkurinn smíðaði átta timburfleka, 4m x 4m að stærð, á Selfossi. Þegar undirstöður voru tilbúnar á staðnum var farið að setja upp stálbita og gólfeiningar sem flekunum var síðan raðað ofan á. Enn á eftir að ganga frá vegriði á brúna og tengja veginn við hana, en sú vinna klárast í næstu viku.

Smíði nýju brúarinnar hefst í næsta mánuði. Brúin verður 24 metra löng, eftirspennt steypt bitabrú í einu hafi með steyptum endastöplum. Gert er ráð fyrir að verkinu ljúki 31. ágúst 2020.

Greint er frá þessu á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Hraðakstur í V-Skaftafellssýslu
Næsta greinStarf skerðist hjá nærri öllu starfsfólki Umf. Selfoss