Vegfarandi sem var á leið um Biskupstungnabraut í morgun hafði sambandi við Samgöngustofu og benti á tvo bíla með hættulega breiðar kerrur í eftirdragi.
Ökumaðurinn mætti tveimur bifreiðum sem voru annarsvegar með breiða hestakerru og hinsvegar vélsleðakerru í eftirdragi sem tóku það mikið vegpláss að mikil hætta skapaðist. Skort hafi ljós og glitaugu svo ekki sé talað um aðgæslu ökumanna því litlu mátti muna að hann rækist á kerrurnar þegar hann mætti þeim.
Í tilkynningu frá Samgöngustofu segir að undir venjulegum kringumstæðum eigi ekki að standa hætta af breidd slíkra farartækja en þar sem breidd vega er nú víða mjög takmörkuð vegna snjóruðnings þá getur stærð slíkra tækja skapað mikla hættu þegar bílar mætast.
Samgöngustofa vill hvetja ökumenn breiðra eftirvagna til að gæta fyllstu varúðar þegar bifreiðar mætast. Hægja för og gæta þess að allur ljósabúnaður og glitaugu, aftan, framan og á hliðum vagnsins séu hrein og standist öryggiskröfur og lög.