Brenndist alvarlega við Gömlu laugina

Erlendur ferðamaður var fluttur illa brunninn með þyrlu á sjúkrahús í gærkvöldi eftir að hafa farið ofan í 80 gráðu heitan hver við Gömlu laugina í Hrunamannahreppi.

Maðurinn, sem er um sjötugt, er mjög alvarlega slasaður og liggur nú á gjörgæslu.

Hann hafði verið að baða sig í Gömlu lauginni en að sögn lögreglunnar á Suðurlandi virðist hann hafa stigið upp úr lauginni, og gengið um svæðið. Skammt frá gömlu lauginni fer hann, eða fellur, ofan í hverinn, með þeim afleiðingum að hann brenndist illa á höndum, fótum og bringu, samkvæmt upplýsingum mbl.is.

Lögreglan veit ekki enn hvort maðurinn féll, eða fór sjálfur ofan í, en ýmislegt bendir til að hann hafi talið að þarna væri um aðra náttúrulaug að ræða, sem óhætt væri að baða sig í.

Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl til móts við þyrluna sem lenti við Skeiðavegamót. Þyrlan lenti svo við Landspítalann í Fossvogi á ellefta tímanum.

Fyrri greinFramkvæmdum í höfninni frestað
Næsta greinSASS vill selja húsið