Vegagerðin hefur ákveðið að fresta breytingu á hafnarmynni Landeyjahafnar til næsta sumars. Til stóð að útbúa plön fyrir dælukrana á endum hafnargarðanna á grjótfylltum stáltunnum.
Hefja átti dælingu síðla árs 2020 með nýjum dælubúnaði, sem keyptur hefur verið til landsins og er áfram miðað við að svo geti orðið. Dælubúnaðurinn verður prófaður í haust og vetur á öðrum stað en í hafnarmynninu.
Samkomulag er við verktakann um þessa breytingu, sem jafnframt er gerð eftir samráð við skipstjórnarmenn Herjólfs sem telja ekki ráðlegt að ráðist sé í breytingar á höfninni á sama tíma og reynsla er að komast á siglingar á nýja skipinu. Einnig er kostur að veðurskilyrði eru sem best til framkvæmda við hafnarmynnið snemmsumars.
Unnið hefur verið að breytingu á innri höfninni að undanförnu og verður henni lokið á næstu mánuðum. Breytingin felst í því að rýmka snúningspláss fyrir Herjólf og draga úr ókyrrð við hafnarbakkann, sem eykur öryggi sjófarenda í höfninni.