Frá og með deginum í dag getur fólk notað Ferðagjöfina sína fyrir 9.000 kr. á veitingastöðunum Kaffi krús, Vor og Tryggvaskála á Selfossi.
„Við viljum með einföldum hætti bjóða viðskiptavinum okkar að prófa alla þessa þrjá staði og þá var 5.000 króna Ferðagjöfin ekki nóg, þannig að við ákváðum að koma með mótframlag. Nú er hægt að nota Ferðagjöfina til þess að kaupa þrjú 3.000 króna gjafabréf, samtals að verðmæti 9.000 krónur,“ segir Tómas Þóroddsson, veitingamaður, í samtali við sunnlenska.is.
„Tilboðið tekur gildi strax í dag og verður út september. Við viljum líka hvetja fólk til að nota Ferðagjöfina sem fyrst, annars getur hún gleymst. Ef fólk er búið að nota Ferðagjöfina sína þá leyfum við því að sjálfsögðu að vera með og breyta 5.000 krónum í 9.000 krónur.“
Bröns í Skálanum um helgar
Tómas segir að ýmsar nýjungar séu á matseðlinum hjá þeim. „Það er gaman að segja frá því að við erum að byrja með bröns um helgina í Tryggvaskála. Frábæran disk sem verður í gangi á milli kl 11:00 og 15:00 alla laugardaga og sunnudaga. Það verður boðið upp á egg Benedict, önd, amerískar pönnukökur, heilsusafa og fleira. Virkilega spennandi morgunverðarseðill hjá kokkunum.“
Eftir erfitt árferði er Tómas bjartsýnn á veturinn. „Veturinn leggst bara vel mig, en síðust tveir vetur hafa verið mjög erfiðir vegna Covid. Þannig að nú horfum við bjartsýn fram á við með lækkandi sólu,“ segir Tómas að lokum.