Anna Hansen, söngkona frá Leirubakka í Landssveit, datt í gærkvöldi úr keppni í danska tónlistarþættinum Voice sem sýndur er á TV2.
Anna var komin í 32 manna úrslit en í gærkvöld fór fram svokallað einvígi, þar sem tveir og tveir úr sama liði kepptu á móti hvorum öðrum. Þjálfarar keppendanna völdu einn úr hverju einvígi áfram en Anna var ein af þeim sem send var heim.
„Ég er auðvitað vonsvikin að komast ekki áfram. En ég fékk rosa góð viðbrögð frá bæði hinum þjálfurunum og Bosko. Aðstoðarþjálfarinn talaði líka rosa vel um mig og sérstaklega allt fólkið bakvið þáttinn og í salnum hrósuðu mér í hástert. Allir voru sammála um það að ég hefði ekki dottið út af því að ég væri verri söngvari,” sagði Anna í samtali við sunnlenska.is.
Anna segir að hún sé ánægð með að hafa ákveðið að taka þátt. „Þetta er búið að vera brjáluð upplifun. Ég er búin að kynnast fullt, fullt af frábæru fólki og læra helling um sjálfa mig. Það er rosa lærdómsríkt að ganga í gegnum öll þessi viðtöl og hafa myndavélarnar á sér endalaust. Þau gefa sig út fyrir að gera allt fyrir keppendurna og ég er sammála því. Fólkið á bakvið þættina passaði rosa vel upp á að við hefðum það gott og værum vel undirbúin,” segir Anna.
„Þetta er búin að vera frábær reynsla og ég er langt frá því að vera hætt. Nú er bara að nýta sér þessa reynslu og finna út hvað næsta verkefni verður,” segir Anna að lokum.