Lögreglan á Selfossi fékk þrjár tilkynningar í liðinni viku um innbrot í sumarbústaði skammt frá Kerinu í Grímsnesi. Mismiklu var stolið úr bústöðunum.
Í öllum tilvikum hafði gluggi eða hurð verið spennt upp til að opna leið í húsin.
Aðallega voru það rafmagnsstæki eins og flatskjáir, verkfæri og ýmsir smámunir sem hurfu úr húsunum.
Þjófavarnakerfi fór af stað í einum bústaðanna 22. september kl. 09:24. Minnst var tekið úr þeim bústað svo leiða má líkum að þjófurinn hafi lagt á flótta því engin var sjáanlegur nærri þegar lögregla kom á staðinn skömmu síðar.
Ekki er útilokað að sami einstaklingur hafi verið að verki í hinum tveimur bústöðunum.