Hreppsnefnd Flóahrepps mátti ekki víkja Almari Sigurðssyni úr umhverfisnefnd sveitarfélagsins líkt og gert var þann 17. mars sl.
Þetta er niðurstaða samgönguráðuneytisins sem fer með málefni sveitarfélaga. Brottvikningin var gerð á þeim forsendum að Almar hefði lýst yfir framboði gegn sitjandi sveitarstjórn. Almar fór fram á það við ráðuneytið að það úrskurðaði um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar.
Í úrskurði ráðuneytisins kemur fram að brottvikningin hafi verið ólögmæt og að jafnframt hafi málsmeðferð sveitarstjórnar við kjör nýs fulltrúa í umhverfisnefndina ekki verið í samræmi við lög og skipan nefndarinnar sem starfaði frá miðjum mars til 14. júní sl. Hefði verið full samstaða í sveitarstjórn um að breyta um fulltrúa í nefndinni hefði ekki þurft að kjósa í hana á nýjan leik en einn fulltrúi í sveitarstjórn setti sig upp á móti brottvikningunni.
Ráðuneytið féllst ekki á skýringar sveitarstjórnar sem hún bar fyrir sig í greinargerð að Almar hafi nýtt fundi umhverfisnefndar til að gagnrýna meirihluta sveitarstjórnar og þannig unnið gegn meirihlutanum. Slík röksemdafærsla hefði með réttu átt að koma fram við ákvörðun um brottvikningu. Einungis var bókað að Almari væri vikið úr nefndinni vegna fréttar um nýtt framboð í Flóahreppi, en fram hafði komið í Fréttablaðinu að til stæði að bjóða fram nýjan framboðslista í kosningunum þá um vorið og að Almar væri einn forsvarsmanna framboðsins.
Í samtali við Sunnlenska sagði Almar niðurstöðuna sýna hvernig stjórnsýslan var í Flóahreppi á síðasta kjörtímabili. Úrskurðurinn væri áminning til sveitarstjórnarmanna að virða lög og reglur sem þeir eigi að starfa eftir. „Mér fannst sem væri verið að sparka í mig og ég var ekki tilbúinn að láta það yfir mig ganga,“ sagði Almar.
Aðalsteinn Sveinsson, oddviti Flóahrepps, sagði úrskurð ráðuneytisins koma sér á óvart en vildi ekki tjá sig frekar um málið þegar Sunnlenska hafði samband við hann.