Ögmundur Jónasson, ráðherra samgöngumála, segir að það verði sett í algjöran forgang að tryggja samgöngur um Suðurland eftir að hlaup hreif brúna yfir Múlakvísl með sér.
Málið verður rætt á fundi lögreglumanna, Vegagerðarmanna og Steingríms J. Sigfússonar, starfandi forsætisráðherra, í kvöld.
„Það er mjög traustvekjandi að sjá hvernig Vegagerðin tók á þessum málum,“ segir Ögmundur í samtali við RÚV. „Þegar í morgun voru sérfræðingar hennar komnir á staðinn að meta efni sem er til staðar og hönnuðir teknir til við að hanna nýja brú,“ segir Ögmundur.
Aðspurður hvort til standi að styrkja Fjallabaksleið svo hægt sé að senda stærri og þyngri bíla þar um segir Ögmundur að það sé eitthvað sem fulltrúar Vegagerðarinnar verði að svara. Slík lausn kæmi þó aldrei í stað þjóðvegarins sem nú er rofinn.
„Þetta minnir á hvaða land Ísland er! Náttúrukraftana sem við búum við. En þetta minnir líka á að við eigum vel smurt almannavarnakerfi,“ segir Ögmundur.