Undirbúningur vegna smíði bráðabrigðabrúar yfir Múlakvísl gengur vel. Í kvöld var hafist handa við að reka niður 40 rafmagnsstaura og verður unnið sleitulaust fram á nótt þar til allir staurarnir eru komnir á sinn stað.
Hluti annars efnis í brúna er einnig komið að brúarstæðinu.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að nú sé reiknað með að brúargerðin gæti tekið styttri tíma en fyrst var áætlað svo framarlega sem vel gengur og ekkert óvænt komi upp á. Þannig að vonast er til að bráðabrigðabrúin verði tilbúin upp úr miðri næstu viku eða undir þá helgi.
Fólk og bílar hafa verið ferjuð yfir Múlakvísl frá því síðdegis í dag með aðstoð björgunarsveita og verður svo áfram næstu daga. Reynslan mun skera úr um þörfina og hvernig gengur að sinna henni en búast má við nokkurri bið sérstaklega við að ferja bíla yfir.