Brúin yfir Eldvatn hjá Ásum verður opin fyrir léttri umferð frá kl. 7 – 19 daglega frá og með þriðjudeginum 10. nóvember. Leyfilegur heildarþungi ökutækis á brúnni er 5 tonn og einungis ein bifreið er leyfð á brúnni samtímis.
Opnað verður í samráði við starfsmenn Vegagerðarinnar í Vík en unnið er að því að koma á sjálfvirkri vöktun. Brúin skekktist í Skaftárhlaupinu sem hafði áhrif á burðarþolið.
Vegagerðin hefur frá því Skaftárhlaupi lauk staðið í ýmsum athugunum á ástandi núverandi brúar yfir Eldvatn hjá Ásum og rannsóknum á jarðfræði svæðisins. Mikið rof á austurbakka farvegarins hefur leitt til þess að brúin hefur skekkst í þeim atburðum sem áttu sér stað og hefur það áhrif á burðarþol hennar.
Vegagerðin telur að við flóð muni eystri árbakkinn halda áfram að rofna og jafnvel án þess að til stórs Skaftárhlaups komi. Ekki þarf mikið rof til viðbótar til þess að brúin skemmist frekar. Til þess að fá nánari upplýsingar um farveg árinnar hefur verið undirbúin dýptarmæling í honum, en ekki hefur verið unnt að gera þær mælingar vegna þess hve rennsli árinnar hefur verið mikið.
Samhliða þessum rannsóknum var sá möguleiki skoðaður að opna núverandi brú fyrir léttri umferð til skemmri tíma. Nauðsynlegt er að vakta austurbakka árinnar og hreyfingar brúarinnar til að tryggja öryggi vegfarenda verði hún opnuð fyrir léttri umferð.
Gert er ráð fyrir að brú á Eldvatn hjá Ásum verði opnuð fyrir léttri umferð þriðjudaginn 10.nóvember 2015. Fyrirkomulag opnunar verður fyrst um sinn á þann hátt að brúin verður opnuð að morgni um kl. 7 en lokað að kvöldi um kl. 19 í samráði við starfsmenn Vegagerðarinnar í Vík. Utan þess tíma er allur akstur bannaður. Þetta fyrirkomulag verður haft þar til sjálfvirk vöktun verður komin í gagnið. Unnið er að undirbúningi sjálfvirkrar vöktunar og stefnt er á að hún verði komin í gagnið eftir um það bil 2 vikur.