Matvælastofnun barst rétt fyrir helgi tilkynning um að brúni hundamítillinn (Rhipicephalus sanguineus) hafi greinst á hundi sem farið var með til skoðunar til dýralæknis á Selfossi vegna kláða og húðvandamála.
Mítillinn var greindur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Þessi mítlategund hefur aðeins greinst í örfá skipti hér á landi og er ekki talinn landlægur.
Matvælastofnun vinnur áfram að því að hindra að þessi vágestur nái fótfestu hér á landi. Stofnunin vill benda hundaeigendum á að vera vakandi fyrir þessu sníkjudýri og hafa samband við dýralækni ef þeir verða varir við mítla eða eitthvað grunsamlegt í feldi hunda sinna.
Meindýr eins og brúni hundamítillinn geta borist með fólki og farangri þess erlendis frá þar sem hann er landlægur, sér í lagi með því sem hefur verið í snertingu við dýr eða nálægt dýrum. Hann nærist helst á hundum en getur lagst á önnur spendýr, svo sem nagdýr.
Matvælastofnun mun fyrirskipa að dýr sem mítillinn hefur greinst á verði einangruð frá öðrum dýrum, þangað til viðurkennd lyfjameðhöndlun er hafin og orðin virk.
Samhliða meðhöndlun þarf að ryksuga daglega allt á heimilinu í hólf og gólf, sérstaklega staði sem mítlarnir geta leynst á s.s. í sprungum, undir listum og þröskuldum. Bæli hundsins, teppi, fatnað o.s.frv. þarf að þvo. Frysting eða gufuhreinsun getur verið ráð í sumum tilvikum ef ekki er hægt að þvo. Ef mikill fjöldi mítla er í húsnæðinu gæti þurft að leita til meindýraeyðis.