Þjófar brutust inn í ferðamannaverslunina við Geysi í Haukadal kl. 2:40 aðfaranótt laugardags. Þeir stálu miklu magni af verðmætum fatnaði.
Þjófarnir voru þrír og huldu andlit sín. Eftir að hafa látið greipar sópa og haft með sér talsvert magn af verðmætum útvistarfatnaði hurfu þeir á braut en komu svo aftur tæpri klukkustund síðar og tóku meira af fatnaði. Þýfið var að mestu leyti fatnaður frá 66° Norður.
Innbrotið uppgötvaðist þegar starfsfólk kom til vinnu á laugardagsmorgun.
Málið er í rannsókn og biður lögreglan alla þá sem veitt geta upplýsingar um mannaferðir á fyrrgreindum tíma við eða á Geysissvæðinu að hafa samband í síma 480 1010.