Sunnlenskar kraftakonur rúlluðu upp keppninni um Sterkustu konu Íslands sem fram fór í Mosfellsbænum síðastliðinn sunnudag.
Bryndís Ólafsdótttir á Selfossi, margfaldur handhafi titilsins, sigraði en á eftir henni komu Stokkseyringarnir Þóra Þorsteinsdóttir og Rósa Birgisdóttir í 2. og 3. sæti. Fjórða varð Selfyssingurinn Anna Heiður Heiðarsdóttir og í sjötta sæti Anna Björk Hjaltadóttir frá Fossnesi í Gnúpverjahreppi. Átta konur tóku þátt í keppninni.
Hörð keppni var um fyrsta sætið en Bryndís sigraði með 36 stig, Þóra hlaut 34,5 stig og Rósa 33,5. Anna Heiður var með 22 stig og Anna Björk 15 stig.
Í undir 75 kg flokki varð Lilja Björg Jónsdóttir frá Götu í Hrunamannahreppi í 2. sæti með 23,5 stig eftir gríðarlega harða keppni en hún var jöfn sigurvegaranum að stigum en sú vann fleiri einstakar greinar.
Þetta er í sjötta skipti sem Bryndís sigrar í keppninni en hún vann í fyrra og áður hafði hún sigrað á árunum 1995 til 1998. Bryndísi hefur verið boðið að taka þátt í keppninni Sterkasta kona í heimi sem fram fer í Finnlandi í lok nóvember og hyggur hún á þátttöku í því móti.