Brynja, hússjóður Öryrkjabandalagsins, hefur sótt um stofnstyrk til Sveitarfélagsins Árborgar vegna kaupa á íbúðum í Árborg á árunum 2017 og 2018.
Um er að ræða styrki vegna kaupa á tveimur íbúðum á árinu 2017, en áætlað kaupverð þeirra er 50 milljónir króna. Einnig er sótt um styrk vegna kaupa og byggingu á þremur íbúðum á árinu 2018 og er áætlað kaupverð, eða byggingarkostnaður, 75 milljónir króna.
Brynja sækir um 12% stofnstyrk og 4% viðbótarframlag vegna skorts á leiguhúsnæði.
Á fundi sínum í vikunni fagnaði bæjarráð áhuga Brynju á að byggja upp í sveitarfélaginu. Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Árborgar, var falið að gera tillögu að reglum um úthlutun stofnframlaga samkvæmt lögum um almennar íbúðir.