Brýnt að styrkja sjúkraflutninga á Suðurlandi með sjúkraþyrlu

Þyrla Landhelgisgæslunnar tekur á loft frá Selfossflugvelli. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga telur mjög brýnt að styrkja bráðaviðbragð sjúkraflutninga með viðveru sjúkraþyrlu á Suðurlandi þannig að viðbragðstími sé innan ásættanlegra viðmiðunarmarka.

Málið var rætt á síðasta stjórnarfundi SASS en Birgir Ómar Haraldsson, forstjóri Norðurflugs, var gestur fundarins og kynnti hann hugmyndir og sýn fyrirtækisins tengt rekstri þyrlu til sjúkraflutninga á Suðurlandi. Í máli hans kom fram að sjúkraþyrlur séu minni en björgunarþyrlur og talsvert ódýrari í innkaupum og rekstri.

Í bókun frá fundinum hvetur stjórn SASS heilbrigðisyfirvöld til að hefja tilraunaverkefni sem samþykkt var með þingsályktun á Alþingi um rekstur á sérhæfðri sjúkraþyrlu árið 2019.

Þá telur stjórn SASS að rekstur sérhæfðrar sjúkraþyrlu heyri undir starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og hvetur stjórnin ráðherra til að fela HSU verkefnið og með því fjármagn til að sinna því. Þannig verði öryggi eflt og viðbragðstími sjúkraflutninga á stórum hluta Suðurlands styttur umtalsvert.

Fyrri greinTeitur Örn til liðs við Gummersbach
Næsta greinÁframhaldandi samstarf um vefsíðuna Safe Travel