Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur úthlutað Hveragerðisbæ 2,9 milljónum króna til uppbyggingar í Hveragarðinum. Þar eru áform uppi um gerð goshvers og tilgátuhúss en ef áætlanir ganga eftir mun goshverinn fara að virka uppúr miðjum maí.
Það er Árni Páll Árnason, leikmyndahönnuður, sem vinnur að þessu verkefni með Davíð Samúelssyni, ráðgjafa bæjarins. Vonir standa til þess að aðsókn að garðinum muni enn aukast með þessum áformum en gestir á árinu 2015 voru um 22.000 talsins.
Minjastofnun Íslands hefur einnig samþykkt 500 þúsund króna styrk úr Húsfriðunarsjóði til Hveragerðisbæjar til nýsmíði og viðgerðar á gluggum í Mjólkurbúi Ölfusinga, Breiðamörk 26.
Hveragerðisbær hefur nú eignast Mjólkurbúið að fullu og þegar verður hafist handa við viðgerðir og endurbætur á þessu sögufræga húsi sem teiknað er af Guðjóni Samúelssyni. Húsið er eitt elsta hús bæjarins, byggt árið 1929, með ríka sögu og tengingu við upphaf byggðar í Hveragerði. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2016 er gert ráð fyrir 10 milljónum króna til viðgerðar utanhúss á húsinu og því er styrkur Minjastofnunar vel þeginn.