Búast við meira en 40 þúsund gestum á árinu

„Það má segja að við séum með þessu að koma heildarhugmyndinni okkar um starfsemina hér í framkvæmd,“ segi Knútur Ármann, ferðaþjónustu- og garðyrkjubóndi í Friðheimum í Biskupstungum.

Þar var formlega opnuð Litla tómataverslunin með hátíðlegum hætti á föstudag að viðstöddum fjölda gesta. Að Friðheimum er rekin garðyrkjustöð allt árið ásamt því að ferðamenn geta kynnst íslenska hestinum þar yfir sumartímann.

„Fyrir tveimur árum byggðum við hér upp 2200 fermetra gróðurhús og við vildum gefa fólki tækifæri að upplifa hvernig uppskeran fer fram,“ segir Knútur.

Því var byggður um 300 fermetra skáli inni í miðju gróðurhúsinu þar sem gestir koma á hverjum degi.

Í framhaldi af því var ákveðið að útbúa matarminjagripi, útlitsgallaða vöru og búa til úr henni vörulínu, svo sem tómatdrykki, sósur, salsa, sultu og fleira úr afurðinni. „Við vildum bjóða gestum okkar að taka með svona matarminjagrip og því hefur þessi verslun verið opnuð,“ segir Knútur.

24.000 gestir hafa heimsótt Friðheima frá áramótum,þeir hafa notið þess að horfa á hestasýningar, fræðast um garðyrkju og smakka hollar afurðir beint frá býli.

Opið er í gróðurhúsunum frá kl 12-14 alla virka daga í sumar og fyrir hópa eftir samkomulagi. „Við gerðum ráð fyrir að gestir yrðu 40 þúsund á þessu ári, en það bendir allt til þess að þeir verði jafnvel enn fleiri áður en árið er liðið,“ segir hann.

Fyrri greinÞrjú HSK met á Stórmóti Gogga galvaska
Næsta greinÞrír markmenn dugðu ekki til sigurs