Veðurspár fyrir síðdegið og kvöldið eru mjög vondar og brýnt að allir taki fullt mark á viðvörunum sem fram hafa komið. Nauðsynlegt er að ganga tryggilega frá öllum lausum munum utandyra, líka þeim sem alltaf hafa verið til friðs.
Eins eru eigendur skipa og báta hvattir til að huga að landfestum. Enginn ætti að stofna sjálfum sér eða öðrum í hættu við að bjarga verðmætum á meðan veðrið gengur yfir heldur halda sig innandyra en vera ekki við glugga sem eru áveðurs.
„Veðrið gengur niður í nótt en þá kemur snúður lægðarinnar yfir suðvesturlandið með 5°C og rigningu. Því má búast við miklum vatnselg með morgninum,“ segir Einar Sveinbjörnsson hjá Veðurvaktinni. Brýnt er að íbúar á suðvesturhorni landsins, a.m.k. frá Borgarnesi að Hvolsvelli, tryggi að vatn eigi greiða leið að og ofan í niðurföll,“
Í tilkynningu frá VÍS segir að gott sé að moka snjó frá húsveggjum og af svölum og gera vatnsrásir í snjóinn að niðurföllum. Þar sem grýlukerti og snjór hafa ekki þegar fallið af þökum má búast við að það gerist við þessar aðstæður. Tryggja þarf að enginn verði þar undir með því að afmarka gönguleiðir og að engin verðmæti séu undir.