Síðastliðinn miðvikudagsmorgun bauð Bíóhúsið Selfossi öllum krökkunum í 8. bekk Vallaskóla í bíó og var mikil ánægja í hópnum með framtakið.
„Það var búið að bóka og skipuleggja bíóferð með krökkunum og fá samþykki stjórnenda fyrir henni. Krökkunum er síðan tilkynnt á mánudaginn að í sparnaðarskyni geti þau ekki farið í bíó. Okkur fannst þetta afar harkalega fram gengið gegn krökkunum,“ segir Marinó Geir Lilliendahl, hjá Bíóhúsinu, í samtali við sunnlenska.is.
„Við fengum því Ölgerðina og Sambíóin með okkur í lið og ákváðum að bjóða öllum krökkum í 8. bekk á Selfossi í bíó. Ölgerðin og Sambíóin voru strax til í þetta, núna eru krakkarnir í Vallaskóla búnir að koma til okkar og við fáum 8. bekk í Sunnulækjarskóla til okkar líka. Við viljum með þessu hvetja sveitarfélagið til að gera betur. Þó að það sé verið að spara þá eru svona viðburðir fyrir krakkana ekki það sem er að láta sveitarfélaginu blæða,“ bætti Marinó við.
Krakkarnir fengu allir popp og gos og skemmtu sér síðan yfir Marvel-myndinni Guardians of the Galaxy – og allir fóru glaðir heim.