Þórdís H. Ólafsdóttir, kennsluráðgjafi, kom til starfa um síðustu mánaðamót á fræðslusviði Árborgar. Búið er að ráða í fjórar aðrar stöður á fræðslusviðinu sem verður eflt eftir að Árborg sagði sig úr Skólaskrifstofu Suðurlands.
Þrátt fyrir að breytingar á skipulagi sérfræðiþjónustunnar taki ekki gildi fyrr en um næstu áramót þarf að standa vel að undirbúningi og mun Þórdís koma í ýmis verkefni sem tengjast skipulagsbreytingunum á skrifstofu fræðslusviðs og í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins.
Þórdís er með M.Ed. próf frá Háskólanum á Akureyri með áherslu á sérkennslufræði. Hún lagði áður stund á nám í sérkennslu og ráðgjöf í Malmö Universitet í Svíþjóð, er með B.Ed. próf frá Kennaraháskóla Íslands og starfsréttindi í grunnskóla og í framhaldsskóla.
Þá hefur verið starfandi sérkennslufulltrúi leikskóla í nokkur ár á fræðslusviði sveitarfélagsins sem er Ásthildur Bjarnadóttir. Aðrir sérfræðingar sem hafa verið ráðnir í helstu verkefni sérfræðiþjónustu skóla í Árborg koma til starfa síðar en þeir eru eftirtaldir Sólveig Norðfjörð í sálfræðiþjónustu frá 1. nóvember næstkomandi og Lára Ólafsdóttir í sálfræðiþjónustu frá næstu áramótum. Um áramót koma einnig til starfa Hólmfríður Sigrún Gylfadóttir kennsluráðgjafi og Álfhildur Þorsteinsdóttir talmeinafræðingur.