Búið að opna Hellisheiði og Þrengsli

Búið er að opna Suðurlandsveg um Sandskeið og Hellisheiði, sem og Þrengslaveg.

Veginum yfir Hellisheiði var lokað á sjötta tímanum í kvöld eftir árekstur snjóruðningstækis og jeppa. Skömmu síðar var Suðurlandsvegi lokað milli Hveragerðis og Rauðavatns, sem og veginum um Þrengsli.

Björgunarsveitir á Suðurlandi og af höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út til að aðstoða vegfarendur í ófærð og óveðri. Losa þurfti bíla við Þrengslavegamót og á Sandskeiði, þar sem ástandið var slæmt.

Á Hellisheiði má gera ráð fyrir skafbyl og litlu skyggni þar til seint í kvöld. Víðast hvar hlánar síðar í kvöld og nótt með vatnsveðri upp í 300-400 metra hæð. Vakin er athygli á því að flughált verður þegar leysir og einkum á það við um vegi á vestanverðu landinu.

Fært var um Suðurstrandaveg en þar var hálka og skafrenningur. Óveður var um tíma undir Eyjafjöllum og ekkert ferðaveður og ófært var í nokkra stund frá Gígjukvísl að Mýrdalssandi.

UPPFÆRT KL. 03:10

Fyrri greinGuðmundur til Nordsjælland
Næsta grein„Fyrsti vorboðinn“ mættur