Rannsókn á slysavettvangi vestan við Kirkjubæjarklaustur er lokið og hefur Suðurlandsvegur verið opnaður fyrir umferð á ný.
Um 300 manns komu að útkallinu í dag, allar bjargir frá Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslum voru kallaðar út auk allra sjúkraflutningamanna frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem og lögreglumanna á Suðurlandi.
Einnig opnaði Rauði krossinn fjöldahjálpastöð í grunnskólanum á Klaustri og sjúkraflutningamenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins fóru á svæðið auk þess að dekka svæðið fyrir félaga sína á Selfossi sem allir fóru á vettvang.
Allar þrjár þyrlur Landhelgisgæslunnar komu einnig á vettvang og fluttu í heildina 22 sjúklinga á sjúkrahús, 12 til Reykjavíkur og 10 á Selfoss.
Viðbragðsaðilar unnu frábærlega saman
Rúmlega sextíu félagar úr Slysavarnafélaginu Landsbjörg komu á einn eða annan hátt að aðgerðum. Sinntu þeir verkefnum við aðgerðarstjórnun, samhæfingu, aðhlynningu á vettvangi, flutning á slösuðum og lokunum á þjóðvegi 1.
Um klukkan sjö í kvöld voru hópar á vegum björgunarsveita enn að sinna verkefnum við flutning slasaðra og síðustu hópar luku sínum verkefnum þegar þjóðvegurinn var opnaður nú rétt upp úr níu í kvöld.
Ármann Ingi Sigurðsson í svæðisstjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar var í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi í dag og sagði hann að „allir viðbragðsaðilar hafi unnið frábærlega vel saman og augljóst að æfingar sem haldnar hafi verið hafa skipt sköpum, því allir þeir fjölmörgu viðbragðsaðilar sem komu að aðgerðinni í dag náðu að vinna sem einn.“