Búið er að koma öllum ferðamönnunum sem bjargað var sunnan Langjökuls í nótt í hús á Gullfosskaffi við Gullfoss.
Fyrsti hópurinn kom þangað um klukkan hálfsjö í morgun og síðustu ferðamennirnir voru komnir í hús laust fyrir klukkan átta. Fjöldahjálparstöð var opnuð í Gullfosskaffi þar sem lögregla, heilbrigðisstarfsfólk frá HSu og viðbragðshópur fjöldahjálpar hjá Rauða krossinum tók á móti fólkinu.
Enginn var alvarlega slasaður en fólkið var orðið kalt, blautt og þrekað eftir atburð dagsins. Um var að ræða 39 manna hóp á öllum aldri sem hafði farið í skipulagða ferð á vegum ferðaþjónustufyrirtækis um kl. 13 í gær.
Framundan er vinna við að koma fólki á hótel sín. Enn er nokkur fjöldi björgunarmanna ennþá á leið af fjöllum. Veður og færð en enn slæmt og tefur það för þeirra.
Um 300 manns tóku þátt í björgunaraðgerðum á 57 tækjum við mjög erfiðar og krefjandi aðstæður.