Búist við blindhríð á Hellisheiði

Búast má við því að umferð yfir Hellisheiði raskist vegna slæms veðurs seinnipartinn í dag. Eins má búast við vindhviðum yfir 40 m/s við fjöll, suðvestanlands.

Skil djúprar lægðar fara hratt yfir landið í kvöld og nótt. Það hlánar á láglendi, en á fjallvegum ofan 150-200 m hæðar má reikna með snjókomu og blindu, frá því um kl. 16-17 og fram á kvöld. Lægðarskilunum fylgir stormur, SA 20-25 m/s og nær hámarki á sömu slóðum snemma í kvöld.

Veðurstofan gerir ráð fyrir því að veðrið skáni seint í kvöld.

Kl. 10 í morgun var hálka og éljagangur yfir Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka eða snjóþekja er annars mjög víða á Suður- og Suðvesturlandi.

Fyrri greinSamþykkt að vinna áfram að stofnun nýs ungmennafélags
Næsta greinKveðjið jólin með kertaljósi og kósíheitum!