Veðurstofan hefur sent út flóðaviðvörun vegna Hvítár og Ölfusár. Búist er við flóði í nótt og á morgun.
Miklir vatnavextir hafa orðið á Suðurlandi vegna mikilla rignina og spáð er áframhaldandi rigningu í kvöld og nótt.
Vatnshæð og rennsli í Hvítá við Fremstaver hefur aukist mikið frá því klukkan fjögur í nótt og búist er við flóði í Hvítá og Ölfusá í nótt og á morgun.
Miklir vatnavextir eru á efra vatnasviði Hvítár og einnig eru hliðarár í örum vexti. Að sögn Estherar Guðjónsdóttur á Sólheimum er mikið flóð núna í Stóru-Laxá og er hún út um allar eyrar og upp að túnum. Mikið hefur rignt í uppsveitunum og greinilegt að leysingar séu inn á afrétti þó lítill sé snjórinn.
Spáð er áframhaldandi rigningu í kvöld og því má búast við auknum vatnavöxtum á vatnasviði Hvítár og Ölfusár. Flóðið mun koma fyrst fram í Auðholtshverfi, vestan við Flúðir, síðan á Skeið og svo á Dagmálahólma, norðan Selfoss. Einnig má búast við flóði við Kaldaðarnes, sunnan Selfoss.
Bændum með búfénað nálægt Hvítá og Ölfusá er ráðlagt að færa búféð frá ánum í dag.
Jafnframt er flóðahætta á Suðurlandi og Suðausturlandi í Hverfisfljóti og Djúpá.
Ferðafólki og öðrum er ráðlagt að halda sig fjarri ánum. Frekari upplýsingar munu berast ef aðstæður breytast.
Þá eru vegfarendur beðnir að sýna varúð vegna vatns sem flæðir yfir þjóðveg 1 við Skaftafell.