Veðurstofan býst við stormi, meðalvindi meira en 20 m/s, sunnan- og vestantil á landinu í kvöld og til fyrramáls. Búist er við ofsaveðri, 28 m/s eða meira, seint í kvöld og í alla nótt í Vestmannaeyjum, við Eyjafjöll, Mýrdalsjökul og Öræfajökul.
Lögreglan á Hvolsvelli hvetur vegfarendur til að fara varlega og vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu, þótt ekki sé beinlínis lokað fyrir umferð.
Gert er ráð fyrir vaxandi austanátt 15-23 m/s seint í kvöld, en 23-30 m/s syðst. Snjókoma og síðar slydda syðst í kvöld og snjóar einnig í uppsveitum í nótt.
Lægir í fyrramálið, austan 5-13 eftir hádegi á morgun og rigning eða slydda með köflum. Hlýnar smám saman, hiti 0 til 5 stig á morgun.