Búlandsvirkjun í Skaftártungu er flokkuð í biðflokk í nýrri tillögu að þingsályktun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Gefið er grænt ljós á virkjanir í Þjórsá.
Vatnsafls- og jarðhitasvæði á Íslandi hafa nú verið flokkuð í þrjá flokka; nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Tillaga að þingsályktunartillögu um vernd og nýtingu náttúrusvæða á Íslandi var kynnt í morgun. Tillagan fer nú í tólf vikna opið umsagnarferli, áður en endanleg þingsályktunartillaga verður lögð fyrir Alþingi.
Ekki er tekin afstaða til þess hvort virkja eigi í Skaftá. Virkjunarkosturinn, Búlandsvirkjun, er settur í biðflokk en Suðurorka hefur áformað að reisa þar 150 megavatta virkjun. Virkjunin er komin á aðalskipulag og samingar við landeigendur og vatnsréttarhafa langt komnir. Bændur á svæðinu hafa verið mótfallnir virkjunaráformum og sauðfjárbændur hafa sagst missa mikilvæg beitarlönd undir lón vegna virkjunarinnar.
Gefið er grænt ljós á virkjanir í Þjórsá samkvæmt tillögunni. Urriðafossvirkjun í Þjórsá, sem hefur verið nokkuð í umræðunni undanfarin misseri er einnig í flokki orkunýtingar – það er segja nýtingargildi er talið vega hærra en verndunargildi.
Iðnaðarráðherra sagði á kynningunni að flokkun í nýtingarflokk þýddi ekki að hægt yrði að hefja virkjun á svæðunum á morgun. Einungis að hægt yrði að sækja um tilskilin leyfi og hefja mögulega frumathugun.
Grændalur ofan við Hveragerði er meðal kosta sem flokkaður er í sérstakan verndarflokk.