Búrfellslundur verður Vaðölduver

Vindorkuverið við Vaðöldu séð frá Búðarhálsvegi. Mynd/Landsvirkjun

Fyrsta vindorkuver landsins, sem Landsvirkjun reisir nú í Rangárþingi ytra, ber hér eftir heitið Vaðölduver. Vindorkuverið hefur hingað til gengið undir vinnuheitinu Búrfellslundur.

Sveitarstjórn Rangárþings ytra lagði þetta til í fyrra og tekur Landsvirkjun nú undir sjónarmið heimamanna og segir að eftir að staðsetningu vindorkuversins var breytt og umfang þess minnkað sé ekki rétt að kenna það við Búrfell, enda er það fjall töluvert sunnar.

Þar sem vindorkuverið var þekkt í öllu leyfisveitingaferlinu sem Búrfellslundur var ákveðið að hrófla ekki við nafninu fyrr en nú.

Vegaframkvæmdir hafa staðið yfir við Vaðöldu frá sl. hausti á vegum Borgarverks. Við Vaðöldu rísa á næstu árum 28 vindmyllur frá þýska framleiðandanum Enercon. Fyrri 14 vindmyllurnar verða reistar vorið og sumarið 2026 og gangsettar um haustið. Reiknað er með að Vaðölduver verði að fullu tilbúið og komið í rekstur fyrir lok ársins 2027.

Fyrri greinMömmuhópur selur af sér spjarirnar
Næsta greinKennarar í áfalli gengu á dyr