Busarnir í Menntaskólanum að Laugarvatni voru innvígðir í nemendasamfélagið í dag. Áratuga hefð er fyrir því að skíra nýnemana í Laugarvatni.
Halldór Páll Halldórsson, skólameistari, segir að umgjörð og aðdragandi skírnarinnar hafi tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina.
“Stjórnendur skólans og stjórn nemendafélagsins Mímis, hverju sinni, hafa unnið saman að því að aðlaga atburði svonefndrar busaviku til samræmis við þjóðfélagsbreytingar og því hafa átt sér stað mjög jákvæðar breytingar, ekki síst á síðasta áratug,” sagði Halldór Páll í samtali við sunnlenska.is.
“Yfirskrift daganna er jákvæðni og gleði enda á upplifun allra að vera sú þegar nýnemar koma upp úr vatninu eftir skírnina og fá afhenta rós frá stallara fyrir hönd nemendafélagsins,” segir Halldór Páll og bætir við að eldri nemendur geri sér grein fyrir mikilvægi þess að vel sé að öllu staðið.
“Nýnemar hafa frelsi til að víkja frá því að taka þátt í hefðum ef þeim hugnast þær ekki og það ber öllum að virða. Atburðir busavikunnar eru í raun þættir í leikriti sem á að vera eftirminnileg og jákvæð upplifun að taka þátt í. Nemendur eru að kynnast og ljóst er að það eflir kynnin enn frekar hjá þeim að upplifa allt það saman sem er að gerast í félagslífinu þessa fyrstu daga í skólanum,” segir Halldór Páll, nýkominn frá athöfninni við Laugarvatn þar sem brosandi andlit sáust hvarvetna á ströndinni við vatnið.