Lögreglumenn á Selfossi höfðu afskipti af ökumanni bifreiðar vegna gruns um að hann væri undir áhrifum fíkniefna í síðustu viku.
Ástæða þótti til að gera leit að fíkniefnum í bifreiðinni og til þess var fenginn fíkniefnahundur lögreglunnar á Selfossi, Buster.
Hundurinn gaf vísbendingu um að undir ökumannssæti væru fíkniefni og þar fannst dós með smurbætiefni. Dósin virtist ópnuð en þar sem hundurinn var mjög ákveðin var farið að skoða dósina betur. Kom þá í ljós að botninn hafði verið haganlega skorinn úr og skrúfgangi komið fyrir þannig að hægt var að skrúfa botnin úr og í dósina.
Í dósinni leyndust tæp þrjú grömm af kannabis.
Tveir farþegar voru með ökumanni og voru þremenningarnir færðir í fangageymslu og yfirheyrðir.